Siðferði og gildi í íþróttum. Rannsóknarniðurstöður.

Það viðhorf að eiginhagsmunir og sjálflægni séu eðlileg viðmiðun innan íþrótta þarf að minnka, helst hverfa. Með því móti getur afrekadýrkunin látið undan síga og þessi sterka þörf fyrir að vera bestur, hvað sem það kostar. Þá er nauðsynlegt að draga úr alltumlykjandi mikilvægi samkeppninnnar og þeirrar sterku þarfar sem nú ríkir innan íþrótta að sigra, hvaða ráðum svo sem beitt er til þess. Ofbeldi þarf að hverfa úr íþróttum og sama gildir um vísvitandi tilraunir til að skaða andstæðinginn og meiða. Sama gildir um reglur hverrar íþróttagreinar, brot á þeim eiga aldrei að vera hluti leiksins. Draga þarf verulega úr vægi peninga fyrir íþróttirnar, peningagræðgi eða gróðavon getur aldrei samrýmst anda íþróttanna. Stjórnendum verður að gera ókleyft að misbeita valdi sínu, hvort sem það eru fyrirliðar, þjálfarar, dómarar, leiðtogar, fræðimenn eða aðrir.

Hvernig er þetta hægt? Sumir mundu segja að þetta væri ekki vinnandi vegur. Þessir þættir séu orðnir samvaxnir íþróttunum, nauðsynlegur „kostnaður“ á móti öllu því góða sem íþróttirnar koma til leiðar. Í samfélagi þar sem spilling viðgengst á flestum sviðum og fjármagnið ræður allri för sé algjörlega úr takti að gera einhverjar sérstakar siðgæðiskröfur til íþrótta. Þær verði aldrei neitt annað en óraunsætt tuð eða í besta falli gamaldags.

Aðrir hafna þessum rökum og telja slíkt tal uppgjöf, hvort sem það er innan íþrótta eða annars staðar. Það sé einmitt mikilvægt að hefja fána siðbótar á loft innan íþróttanna vegna uppeldisgildis þeirra og sterkra áhrifa á uppvaxandi æsku.

Fyrir örfáum árum var gerð umfangsmikil rannsókn á afstöðu almennings til siðferðis og gilda í íþróttum. Þetta rit greinir frá niðurstöðum rannsóknarinnar. Ábyrgðaraðili rannsóknarinnar var Guðmundur Kristinn Sæmundsson þáverandi aðjunkt við Háskóla Íslands en honum til aðstoðar var Menntavísindastofnun Háskóla Íslands ásamt nokkrum meistaranemum í íþróttafræðu

Rannsóknarniðurstöður

978-9935-9548-9-3