SPOR - Ævi Guðrúnar Árnýjar Guðmundsdóttur frá Hurðarbaki í Flóa

Í nóvember 2015 voru liðin 50 ár síðan móðir mín dó langt fyrir aldur fram. Í febrúar 2016 hefði hún orðið 96 ára gömul, hefði hún lifað. Margir lifa lengur en það í þessari kynsterku ætt nema alvarleg veikindi komi til. Hafi einhvern tíma verið ástæða til að staldra við og minnast hennar sem gaf mér og bræðrum mínum svo mikið er það nú. Mér er sagt að ég hafi erft margt frá móður minni. Ég er viss um að það er rétt. Ég ber einnig sterkan svip af mörgu í atferli og skoðunum föður míns. Ég er stoltur af þeim báðum og tel þau mér til framdráttar. Undirbúningur þessa litla rits hefur fyrst og fremst farið fram í huga mér í nokkur ár. Með því langar mig til þess að kynna hana fyrir þeim afkomendum hennar sem aldrei fengu tækifæri til að kynnast henni. Ég hef valið að láta samantektina hverfast fyrst og fremst um þá miklu sorgaratburði sem foreldrar mínir upplifðu, andlát þriggja fyrstu barnanna sinna á hálfu öðru ári og loks missi þess yngsta. Enginn getur ímyndað sér þær miklu sorgir sem slíkir atburðir valda. Þeir skildu eftir djúp spor í sálarlífi þeirra. Þau spor mörkuðu einnig líf okkar bræðranna á ýmsan hátt. Nátengt þessum áföllum var heilsuleysið sem móðir mín mátti berjast við alla sína ævi.

Kápusíður -Mamma

Innsíður - Mamma